Farbann yfir þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, Magnúsi Guðmundssyni, Ingólfi Helgasyni og Steingrími Kárasyni, fyrrverandi yfirmönnum hjá Kaupþingi, verður ekki endurnýjað og eru þeir því frjálsir ferða sinna frá og með deginum í dag.

Þetta staðfesti Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, við Viðskiptablaðið í dag. Ólafur segir ekki frekara tilefni hafa verið til að halda mönnunum í farbanni.„Við munum ekki setja fram framlengingu á farbanni og í raun er búið að aflétta farbanninu nú þegar. Það var gert í lok síðustu yfirheyrslu yfir þeim. Þeir eru því óbundnir af farbanninu. Það þurfa að liggja tilteknar ástæður að baki því að fara fram á farbann og það er alltaf mat rannsóknaraðila hvort að þörf sé á því. Við mátum það sem svo að ekki væri frekara tilefni til að halda þeim í farbanni.“

Beðið eftir gögnum frá Lúxemborg

Heimildir Viðskiptablaðsins herma þó að rannsókn málsins sé ekki komin á lokastíg. Enn eigi eftir að hnýta marga lausa enda. Þá bíður embætti sérstaks saksóknara enn eftir að fá gögn sem það gerði upptæk í húsleit í Banque Haviiland, sem byggður er á grunni Kaupþing í Lúxemborg, fyrir nokkru. Rannsóknardómari þar í landi þarf að samþykkja að gögnin verði afhent hingað til lands en það samþykki hefur enn ekki fengist. Því sé enn nokkuð í það að ákvörðun verði tekin um hvort meintir gerendur í málinu verði ákærðir eða ekki.

Sigurður Einarsson, sem er eftirlýstur af Interpol, hefur enn ekki verið yfirheyrður. Hann er talin dvelja á heimili sínu í Chelsea-yfirstéttarhverfinu í London og hefur hingað til neitað að sinna boðum um að koma til Íslands í yfirheyrslu.