*

sunnudagur, 29. nóvember 2020
Innlent 9. október 2020 17:55

Krafan í bú WOW ekki sértökukrafa

Héraðsdómur hafnaði í dag kröfu Umhverfisstofnunar þess efnis að þrotabú Wow myndi skila 516 losunarheimildum.

Jóhann Óli Eiðsson
Frá fyrsta skiptafundi þrotabúsins.
Haraldur Guðjónsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði því fyrr í dag kröfu Umhverfisstofnunar þess efnis að þrotabú Wow air myndi skila stofnuninni 516 losunarheimildum. Umhverfisstofnun (UST) taldi að um sértökukröfu væri að ræða en á það féllst héraðsdómur ekki.

Losunarheimildakerfi ESB er ætlað að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Flugfélögum álfunnar er úthlutað slíkum heimildum, að hluta til endurgjaldslaust en hluti þeirra er seldur á uppboði. Í febrúar 2019, skömmu fyrir fall Wow, fékk félagið úthlutað rúmlega 152 þúsund slíkum heimildum frá UST. Þær heimildir voru að stærstum hluta seldar frá Wow andartökum áður en það var tekið til gjaldþrotaskipta. Söluandvirðinu, ríflega 400 milljónum króna, var ætlað að standa undir launagreiðslum mánaðarins.

Eftir stóðu alls 516 heimildir en þær seldu skiptastjórar félagsins í apríl 2019. Áður en kröfulýsingafrestur rann út lýsti UST rúmlega 846 milljón króna kröfu í búið sem tengdust uppgjöri á alls 278 þúsund losunarheimildum. Skiptastjórar komu þeirri kröfu fyrir meðal almennra krafna en ágreiningur var um hvort lítið brot þeirra teldist til sértökukrafna, það er sá hluti sem varðaði téðar 516 heimildir.

UST byggði á því fyrir dómi að á þrotabúi Wow hafi hvílt lögbundin skylda til að skila heimildunum aftur til stofnunarinnar þar sem hún hafi verið eigandi þeirra. Stofnunin hafi upplýst skiptastjóra um það í byrjun apríl 2019 en þeir selt heimildirnar engu að síður. Afleiðing þess var meðal annars sú að UST lagði 3,8 milljarða króna sekt á þrotabúið fyrir að vanrækja skilaskylduna.

Skiptastjórar búsins byggðu málsvörn sína á að UST gæti ekki gert aðrar kröfur í búið en þær sem lýst hafði verið innan kröfulýsingarfrests. Krafan um skil væri því of seint fram komin. Þar hafi heldur ekki verið fram á það að söluandvirði losunarheimildanna 516 yrði lagt inn á UST. Af því leiddi að krafan ætti að fá stöðu almennrar kröfu en ekki sértökukröfu. Einnig var á það bent að greinargerð UST væri í mótsögn við sjálfa sig. Ýmist væri farið fram á að heimildunum yrði skilað en annars staðar viðurkennt að þrotabúið hefði þær ekki lengur undir höndum.

Frjálst að kaupa og selja heimildir

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að viðskipti með losunarheimildir séu frjáls eftir að þeim hefur verið úthlutað eða þau boðin upp. Handhafa þeirra væri heimilt að ráðstafa þeim eins og þeim vildi. Óumdeilt væri að UST væri ekki rétthafi þeirra í skilningi gjaldþrotaskiptalaga og að Wow hefði ekki þurft að afla sérstakra heimilda til viðskipta með því.

Meginreglan við skipti væri jafnræði kröfuhafa og að sértökukröfur væru undantekning frá þeirri meginreglu. Því bæri að túlka það ákvæði þröngt.

„Losunarheimildirnar voru hvorki háðar beinum né óbeinum eignarrétti [UST], enda sérstaklega tekið fram í lögunum að viðskipi með þau eftir að þeim hafi verið úthlutað væru frjáls,“ segir í forsendum úrskurðarins. Skilaskyldu samkvæmt lögunum væri hægt að fullnægja með kaupum á losunarheimildum á uppboði eða frjálsum markaði. Væri henni ekki sinnt væri hægt að leggja sekt á aðila.

„Í lögum er hins vegar hvergi að finna ákvæði um að losunarheimildir séu eign eða réttindi [UST] eða landsstjórnanda sé þeim ekki skilað. Þá er hvergi vikið að því í lögum að kröfur [UST] sem landsstjórnanda á hendur þrotabúi eigi að njóta sérstaks forgangs við úthlutun,“ segir í forsendum.

Kröfunni var því hafnað og þrotabúinu úrskurðaðar 300 þúsund krónur í málskostnað.

Stikkorð: Wow þrotabú krafa