Það styttist í að elsta málið í málaskrá Héraðsdóms Reykjavíkur verði til lykta leitt. Í málinu krefur Glitnir HoldCo Orkuveitu Reykjavíkur um 747 milljónir króna auk dráttarvaxta frá síðasta áratug. Aðalmeðferð fór fram fyrir skemmstu en Orkuveitan krefst sýknu.

Lögmaður Orkuveitu Reykjavíkur í málinu, Jónas A. Aðalsteinsson, fjallaði talsvert um ársreikning Glitnis fyrir árið 2015 en að mati lögmannsins staðfestir reikningurinn að krafa málsins hafi verið framseld íslenska ríkinu sem stöðugleikaframlag. Stöðugleikasamningur Glitnis og ríkisins er hins vegar háður trúnaði og liggur ekki fyrir í málinu, hvorki sem hefðbundið dómsskjal né var hann lagður fyrir dómarana þrjá í trúnaði. OR leitaði meðal annars til úrskurðarnefndar um upplýsingamál til að fá afrit af téðu samkomulagi en nefndin hafnaði því að veita aðgang að skjalinu. OR telur hins vegar að orðalag í úrskurðinum beri með sér að krafan sé ekki í eigu Glitnis. Því til viðbótar hafi krafan verið færð í ríkisreikningi ársins 2016.

„Þess vegna var það sem ég leitaði til Ríkisendurskoðunar með beiðni um að fá afstöðu [um hvort téð framsal hafi átt sér stað]. Þau skeytaskipti liggja fyrir. Þar segir að [embættið] hafi farið yfir sín gögn og að afleiðusamningar falli undir eftirstæðar eignir [í samningnum]. […] Embættið svarar því að það liggi skýrt fyrir að eftirstæðar eignir hafi verið framseldar ríkinu með samningnum,“ sagði Jónas.

Meðal dómskjala málsins eru einnig yfirlýsingar Estherar Finnbogadóttur, sérfræðings hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, og Hauks C. Benediktssonar, framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, þess efnis að krafan sjálf hafi ekki verið framseld ríkinu. Hins vegar liggi fyrir að fallist dómurinn á kröfu Glitnis muni fjárhæðin samkvæmt dómsorði renna til íslenska ríkisins þar sem Glitnir hafi skuldbundið sig samkvæmt téðum samningi til að greiða þær íslensku krónur sem innheimtast í stöðugleikaframlag. Ragnar Björgvinsson, lögmaður Glitnis HoldCo, lagði áherslu á að Glitnir ætti kröfuna, sæi um að innheimta hana en að það sem innheimtist færi til ríkisins.

„Það liggur fyrir skrifleg yfirlýsing um [að ríkið eigi ekki kröfuna] frá Hauki C. Benediktssyni. Þetta skjal er ekkert annað en opinbert skjal [innskot blm. og innihald þess því rétt þar til annað sannast] í skilningi einkamálalaganna,“ sagði Ragnar í andsvörum sínum og benti á að í máli Glitnis gegn Útgerðarfélagi Reykjavíkur hefði þessum málatilbúnaði þegar verið hafnað. Áður hafði Jónas ýjað að því í ræðu sinni að efni yfirlýsinga Hauks og Estherar yrði að skoðast í því ljósi að ríkissjóður hefði talsverða hagsmuni af því hvernig málið myndi enda.

„Auðvitað eru þessir tilteknu samningar, sem deilt er um, ekki framseldir per se heldur er það allur stöðugleikapakkinn. […] Dómurinn í máli Útgerðarfélags Reykjavíkur getur síðan ekki átt við hér af þeirri einföldu ástæðu að þar lágu ekki fyrir sömu gögn og hér. Helsta skjalið, það er svar Ríkisendurskoðunar, kom ekki fram í því máli,“ sagði Jónas í andsvörum sínum. Að aðalmeðferð lokinni var málið dómtekið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .