Stoðir áætla að ef allt fer á versta veg í öllum þeim skattamálum sem skattrannsóknarstjóri vill að enduráætlað verði á félagið, mun það skulda skattayfirvöldum 12,9 milljarða króna.

Viðskiptablaðið greinir frá því í nýjasta tölublaðinu að íslenska ríkið mun eignast 0,2% hlut í Stoðum, áður FL Group, staðfesti yfirskattanefnd úrskurð skattayfirvalda frá því í lok júní síðastliðins um að félagið hafi átt að reikna og skila virðisaukaskatti ofan á reikninga frá erlendum dótturfélögum þess í London og Kaupmannahöfn á árunum 2006 og 2007. Stoðir hefur þegar gefið út nýtt hlutafé til að mæta þessum úrskurði, en samtals fær ríkið afhent hlutafé upp á 37 milljónir króna að nafnvirði.

Talan 12,9 milljarðar byggir á mati sem endurskoðunarfyrirtækið KPMG vann fyrir félagið fyrr á þessu ári. Verði það niðurstaðan ætla Stoðir að gera alla kröfuna upp miðað við forsendur nauðasamnings félagsins. Þá mun íslenska ríkið fá afhentar um 640 milljónir nýrra hluta í Stoðum sem þynnir aðra hluthafa félagsins út um 5,4%. Málin eru fordæmisgefandi og gætu leitt af sér sambærilegar enduráætlanir á marga aðra aðila sem frestuðu tekjuskattsgreiðslum eða töldu ekki fram virðisaukaskatt vegna aðkeyptrar þjónustu erlendra dótturfélaga sinna.