Ávöxtunarkrafan á skuldabréf þau í dollurum sem ríkissjóður gaf út um miðbik júnímánaðar hækkaði snarlega á eftirmarkaði í síðustu viku. Hinn 10. ágúst, þ.e. sl. miðvikudag, var krafan skráð 4,52% hjá Bloomberg upplýsingaþjónustunni en daginn eftir hækkaði hún um 94 punkta og var skráð 5,455%. Hinn 12. ágúst var ávöxtunarkrafan svo skráð 5,468% en síðan hefur hún heldur sigið á ný og var í gærmorgun skráð 5,132%. Ekki er ljóst hvað olli þessari miklu sveiflu en athygli vekur að skuldatryggingarálag ríkissjóðs á fimm ára bréf í dollurum hefur samtímis lækkað mikið og er það nú skráð 240 punktar.