Ávöxtunarkrafa á ítölskum ríkisskuldabréfum hefur ekki verið lægri síðan í lok árs 2010. Í skuldabréfaútboði ítalska ríkisins var ávöxtunarkrafan á tíu ára skuldabréf 3,94%, en var 4,66% í útboði sem fór fram í síðasta mánuði.

Umframeftirspurn var 1,42 sinnum meiri en heildarfjárhæð seldra bréfa, en þetta hlutfall var 1,33 í síðasta mánuði. Ávöxtunarkrafa á fimm ára skuldabréf var 2,84%, en var 3,65% í útboðinu í mars.

Í frétt Financial Times segir að góðan árangur í útboðinu megi rekja til þess að útlit er nú fyrir að stjórnarkreppan sé á enda, því Enrico Letta fékk fyrir helgi það verkefni að mynda ríkisstjórn og kynna leiðir til að lyfta Ítalíu upp úr þeirri kreppu sem hagkerfi landsins hefur verið í undanfarin misseri. Ríkisstjórnin nýtur stuðnings Lýðræðisflokksins, hægriflokks Silvio Berlusconi og miðjuflokks Mario Monti.