Ávöxtunarkrafan á skuldabréf ríkissjóðs í Bandaríkjadölum sem gefin voru út í júní sl. hefur heldur hækkað síðustu vikurnar og er hún nú að festast yfir 5% en fyrstu vikurnar eftir útgáfuna fór krafan lækkandi og var á tímabili komin niður í tæp 4,7%. Samhliða þessu hefur verð skuldabréfanna lækkað en neikvæð fylgni ríkir jafnan á milli verðs og ávöxtunarkröfu skuldabréfa. Í gær var ávöxtunarkrafan skráð 5,153% samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins úr Bloomberg-kerfinu. Skuldatryggingarálag ríkissjóðs var í gær skráð 272 punktar yfir vexti á millibankamarkaði.