Kona var fyrir rúmri viku síðan sýknuð af kröfu Landsbankans um greiðslu 2,4 milljóna króna skuldar vegna bílaláns. Var það mat Héraðsdóms Reykjavíkur að skuldin hefði verið greidd að fullu, eða tæplega 3,4 milljónir króna, og því gæti bankinn ekki krafist frekari greiðslna.

Í apríl 2007 gerði einstaklingur samning við SP Fjármögnun um kaupleigusamning á Toyota Tacoma bifreið. Samningsverðið var 2,3 milljónir tæpar sem bar að greiða með 84 greiðslum að fjárhæð 31.200 krónur. Leigan tók mið af myntkörfu. Síðar sama ár var Tacoma skipt út fyrir Land Cruiser en samningsskilyrði héldu sér.

Í febrúar 2010 var skuldinni umbreytt yfir í íslenskar krónur og lækkaði ógjaldfallinn höfuðstóll við það um ríflega fimmtung eða 829 þúsund krónur. Mánuði síðar tók stefnda í málinu, tengsla hennar við upphaflegan leigutaka er ekki getið, yfir samninginn sem þá stóð í tæplega 2,7 milljónum króna.

Vanskil urðu á samningnum í september 2012 og var honum rift mánuði síðar. Eftir það tímamark féllu til stöðumælasektir, bifreiðagjöld og vanræsklugjald sem falla áttu á stefndu.

Í maí 2016 var bílnum skilað til Landsbankans. Matsverð bílsins var þá ríflega 1,4 milljónir króna. Til lækkunar komu 607 þúsund krónur miðað við ástandsskoðunarskýrslu. 812 þúsund krónur voru greiddar inn á skuldina. Seinna meir var bifreiðin seld á uppboði og fór hún á tæplega 1,7 milljónir króna.

Landsbankinn taldi skuldina ekki greidda. Í fyrsta lagi væru þar á ferð vanskil frá september 2012, stöðumælasektir og ýmis gjöld. Samtals næmi krafan 2,4 milljónum króna. Inn á það hefðu verið greiddar 3,4 milljónir króna. Í stefnu var hins vegar ekki tekið tillit til dráttarvaxta eða innheimtukostnaðar.

Áfallinn kostnaður ekki nefndur í stefnu

Konan taldi á móti að hún hefði greitt kröfuna að fullu og í raun ofgreitt sem næmi tæplega 300 þúsund krónum. Ætti hún í raun endurkröfurétt á Landsbankann vegna þessa. Þessu mótmælti bankinn og benti á að í kröfun konunnar væri ekki tekið tillit til kostnaðar við innheimtu lánsins. Greiðslum inn á skuldina væri fyrst ráðstafað á áfallinn kostnað, síðan dráttavaxta og loks greiðslu höfuðstóls.

Í dómi héraðsdóms var þess getið að í stefnu hefði bankinn getið dráttarvaxta af kröfunni en hins vegar hefði ekki verið krafist greiðslu vegna lögfræðikostnaðar af innheimtu kröfunnar. Eftir að málið var þingfest lagði bankinn fram yfirlit um kostnað sem hann hafði lagt í. Þar var til að mynda getið málskostnaðar, 810 þúsund, dæmdan málskostnað í aðfararmáli, 64 þúsund og kostnað vegna aðfarar 48 þúsund. Áfallnir dráttarvextir væru 863 þúsund. Taldi bankinn konuna enn skulda sér 874 þúsund krónur vegna þessa.

„Af þessari upptalningu útgjalda má ætla að [bankinn] hafi krafist aðfarar hjá [konunni]. Hann hafi þurft að leggja út nokkra fjárhæð vegna þeirrar aðfarar og honum hafi í aðfararmáli verið dæmdur málskostnaður úr hendi stefndu. Þessa kostnaðar getur [bankinn] þó ekki í dómkröfum sínum. Hann nefnir ekki aðför í lýsingu málsatvika og leggur ekki fram nein gögn um útlagðan kostnað vegna aðfarar né heldur að honum hafi verið dæmdur málskostnaður úr hendi [konunnar] í úrskurði um aðför,“ segir í dóminum.

Sagði dómurinn að ekki væri unnt að fallast á kröfu sem ekki væri tilgreind sem dómkrafa og hafi verið fyrst lögð fram um sex mánuðum eftir að málið var höfðað. Miðað við dómkröfu bankans hefði konan greitt höfuðstól og öll þau gjöld sem krafist var greiðslu á.

Skuldin væri því að fullu greidd og konan þar með sýknuð. Bankinn var dæmdur til að greiða henni 750 þúsund krónur í málskostnað að virðisaukaskatti meðtöldum.