Júlían J. K. Jóhannsson kraftajötunn setti í loftið vefsíðu í dag með netverslun fyrir nýju fatalínuna sína sem ber nafnið J.K. Power. Hann fór með bol í sölu fyrir mánuði síðan sem seldist upp eftir þrjár prentanir en samtals voru það um hundrað bolir.

„Ég fann fyrir miklum áhuga fyrir þessu og ákvað því að koma með þessa peysu núna. Hugmyndin er að bjóða upp á vörur sem geta hjálpað fólki sem vill verða sterkt,“ segir Júlían í samtali við Viðskiptablaðið.

Í netversluninni er að finna bol sem er verðlagður á 30 dali, eða um 3.800 krónur, og hettupeysu sem er merkt „Deadlifts & Skyr“ á 59 dali, sem jafngildir um 7.400 krónum. Júlían segir að fleiri vörur séu vætntanlegar á síðunni ásamt óvæntum viðburðum.

Spurður hvort hann hafi orðið var við áhuga erlendis, segir hann að enn sem komið er sé salan að mestu leyti komin frá Íslendingum en að hann hafi þó sent út töluvert af bolum. „Við erum með þessari síðu að reyna að höfða til alþjóðlega markaðarins.“

Í desember tóku Júlían og sambýliskona hans, Ellen Ýr Jónsdóttir, við fyrirtækinu SBD Ísland sem selur æfingafatnað og aðrar kraftlyftinga- og aflraunavörur. Hann segir að reksturinn hafi gengið vel en ólíkt J.K. Power sé SBD sé aðallega hugsað fyrir íslenska markaðinn.

Miðlar áfram reynslu sinni af lyftingum

Júlían, sem var kosinn íþróttamaður ársins 2019, mun einnig reglulega birta greinar á vefsíðunni með ráðum fyrir fólk sem vill styrkjast, bæði líkamlega og andlega.

„Ég er búinn að burðast með það í svolítinn tíma að vera með opinn vettvang þar sem ég get miðlað áfram minni reynslu og hjálpað öðrum í þeirra vegferð að verða sterkir og fyrir þá sem keppa í kraftlyftingum.“

Júlían, sem er heimsmethafi í réttstöðulyftu, hefur lítið keppt frá því að faraldurinn hófst. „En það horfir nú til betri tíma því það er Evrópumót hjá mér í ágúst. Ég er í undirbúningi fyrir það og er mjög vongóður.“