Atburðarás síðustu daga í Kákasus er hvorki meira né minna en staðfesting á nýrri heimsmynd og leiða má líkur að því að kraftbirtingarform hennar falli stjórnmálamönnum á Vesturlöndum ekki í geð. Átök Rússa og Georgíumanna sýna fram á bolmagn hinna fyrrnefndu til þess að tryggja áhrif sín og hagsmuni í fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna og á sama tíma afhjúpa vanmátt Bandaríkjanna og Evrópusambandsins á svæðinu.

Rétt eins og svo margar þjóðir sem eitt sinn voru undir ægivaldi Sovétríkjanna hafa Georgíumenn freistað þess að tryggja stöðu sína með nánum tengslum við Vesturlönd. Ríkisstjórn Mikhaíls Saakhasvili hefur fyrst og fremst horft til aðildar að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og Evrópusambandsins (ESB) í þessum efnum og þar með freistað þess að feta sömu slóð og fyrrum leppríki Sovétríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu.

Flestir stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa stutt þessa viðleitni. Bandaríkin hafa stutt dyggilega við bakið á Saakhasvili með hernaðar- og efnahagsaðstoð og á leiðtogafundi NATO fyrr í sumar var tekið veigamikið skref í átt að aðild Georgíu og Úkraínu – sem er í sambærilegri stöðu og fyrrnefnda ríkið gagnvart Rússlandi – að varnarbandalaginu.

Mikilvæg landfræðileg lega

Hagsmunirnir að baki þessu eru fjölmargir. Stjórnvöld í Tblisi vilja losna undan áhrifum hins valdamikla nágranna og Bandaríkjamenn vilja stuðla að lýðræðisvæðingu í þessum heimshluta. Einnig skiptir landfræðileg lega Georgíu gríðarlega miklu máli. Pólitískir þættir valda því að eina raunhæfa leiðin til þess að flytja gas landleiðina frá Kaspíahafi til Evrópu, án þess að farið sé í gegnum Rússland, er með leiðslum sem liggja um Georgíu. Sem kunnugt er hafa margir af því áhyggjur hversu ríki Evrópu eru háð Rússum um gasinnflutning, ekki síst vegna þess að stjórnvöld í Moskvu hafa nokkrum sinnum beitt orkuvopninu í erjum sínum við nágrannaríkin. Vaxandi spenna í samskiptum rússneskra stjórnvalda við sum ríki Evrópu og stjórnvöld í Washington hafa gert orkuþáttinn enn mikilvægari.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .