Útistandandi skuldir spænskra fyrirtækja, fyrir utan banka og fjármálastofnanir, eru 197% af allri framleiðslu þeirra. Meðaltalið í öðrum ríkjum evru-svæðisins er 158%. Seðlabankastjóri landsins, Miguel Angel Fernandez Ordonez, gerir sér grein fyrir hættunni og sagði á fundi með leiðtogum viðskiptalífsins á dögunum að skuldsetning vegna endurfjárfestingar þyrfti að leiða til framleiðniaukningar til þess að geta talist til góðrar fjárfestingar. Fram til þessa hafa þeir sem fylgjast með gangi mála á Spáni enna helst varað við afleiðingum þenslu á fasteignamarkaði og skuldsetningu heimila. Hins vegar hafa fleiri sérfræðingar áhyggjur af því að fyrirtækin séu að feta í of miklu mæli í fótspor spænskra neytenda og skuldsetji sig of mikið, meðal annars til að fjármagna útrás sína. Í fyrra voru tvær af stærstu yfirtökunum í Evrópusambandinu gerðar af spænskum fyrirækjum. Símafyrirtækið Telefonica SA eyddi 31,67 milljörðum Bandaríkjadala í kaup á breska farsímafyrirtækinu O2 PLC og byggingarsamsteypan Groupo Ferrovial SA leiddi hóp fjárfesta sem keypti breska flugvallarrekstrarfélagið BAA fyrir 23,88 milljarða Bandaríkjadala. Báðar fjárfestingarnar voru að öllu leyti fjármagnaðar með útgáfu skuldar. Samanlagt fjárfestu spænsk fyrirtæki í öðrum fyrirtækjum fyrir 181 milljarð dala í fyrra. Aðeins bresk og frönsk fyrirtæki voru umsvifameiri innan Evrópusambandsins.

Jose Louis Feito, efnahagsráðgjafi samtaka spænskra atvinnurekanda (CEOE), segir að skuldsettar yfirtökur síðasta árs séu ekki áhyggjuefni. Fjárfestingin hafi verið meira og minna í stöndugum fyrirtækjum og hann hefur ekki áhyggjur af aukinni skuldsetningu heldur endurspegli kraftinn í hagkerfinu.

En spænsk fyrirtæki hafa ekki aðeins verið fyrirferðamikil í yfirtökum. Þau hafa einnig notfært sér lága vexti á evrusvæðinu til þess að fjárfesta í atvinnutækjum. Fjárfesting sem hlutfall þjóðarframleiðslu var hvergi meira á evrusvæðinu í fyrra. En þessi mikla fjárfesting hefur ekki enn skilað sér í auknum hagnaði fyrirtækja. Sparnaður spænskra heimila er lítill og því hafa fyrirtækin ásamt heimilunum þurft að sækja lánsfé til ríkja á evrusvæðinu þar sem sparnaður er mikill; aðallega til Þýskalands og Hollands. Þetta ástand hefur meðal annars leitt til þess að viðskiptahallinn er einn sá mesti heimi. Þrátt fyrir að spænsk fyrirtæki hafi ekki þurft að taka á sig gjaldeyrisáhættu við fjármögnun skulda hafa þau í auknum mæli fundið fyrir því að vaxtastig á evrusvæðinu fer hækkandi. Evrópski seðlabankinn hefur hækkað vexti sex sinnum síðan í desember árið 2005 og fastlega er gert ráð fyrir að stýrivextir hans verði komnir í fjögur prósent í sumar. Slíkt gæti reynst myllusteinn um háls spænskra fyrirtækja og heimila sökum skuldsetningar þeirra og ógnað þeirri hagsæld sem Spánverjar hafa notið undanfarin ár.