Sérstakur saksóknari hefur kallað aftur til skýrslutöku hluta þeirra sem tengjast rannsókn embættisins á máli Kaupþings og kaupum al-Thani á 5,01% hlut í bankanum skömmu fyrir hall hans haustið 2008.

Rannsóknin lýtur að stórfelldri markaðsmisnotkun en talið er að viðskiptin við sheik Mohamed bin Khalifa Al-Thani hafi verið sett á svið til að hafa áhrif á gengi bréfa Kaupþings.

Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, vildi ekkert tjá sig um gang rannsóknarinnar í samtali við Viðskiptablaðið.

Rannsókn Embættis sérstaks saksóknara á viðskiptum Kaupþings og al-Thani hófst í mars árið 2009 með umfangsmikilli húsleit. Hún náði til skrifstofa Kaupþings, Kjalars, Samskipa, lögfræðistofa sem tengdust viðskiptunum og einkaheimila. Undir voru félög sem tengdust ‚ Ólafi Ólafssyni, stjórnarformanni Kjalars, með einum eða öðrum hætti.

Rannsóknin á máli al-Thankis er sú sem lengst er komin ásamt rannsókn á málefnum Sjóvár hjá Embætti sérstaks saksóknara.