*

mánudagur, 6. júlí 2020
Fólk 13. maí 2018 19:01

Kraftur úr vestfirskum fjöllum

Einar Snorri Magnússon, sem hefur tekið við sem forstjóri framleiðanda Coca Cola á Íslandi, er stoltur Ísfirðingur.

Ritstjórn
Nýr forstjóri CCEP á Íslandi, áður Vífilfell, er Ísfirðingur sem nýtur sín við veiðar og að fara sem oftast heimaslóðir fyrir vestan. Til dæmis alltaf á páskum til að fara á skíði og á tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður.
Haraldur Guðjónsson

Fyrirtækið sem lengst af bar nafnið Vífilfell, nú Coca Cola European Partners á Íslandi, hefur ráðið Einar Snorra Magnússon í stöðu forstjóra frá og með síðustu mánaðamótum. Hann tók við stöðunni af Carlos Cruz sem snýr nú aftur heim til Portúgal eftir þriggja ára dvöl á Íslandi.

„Ég hef verið framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs fyrirtækisins í þrjú ár núna og hef unnið náið með Carlosi Cruz undanfarið svo ég þekki starfið ágætlega,“ segir Einar. „Það sem helst breytist fyrir utan það að bera ábyrgð á rekstrinum hérna heima er að erlendu samskiptin snaraukast, þá bæði við móðurfélagið, CCEP, og alla stjórnendur þar, en einnig við Coca Cola Company.“

Einar og konan hans, Björg A. Jónsdóttir, eru bæði frá Ísafirði en þau eiga saman þrjú börn á aldrinum 14 til 22 ára. „Eftir að ég kláraði alþjóðamarkaðsfræði í Tækniskólanum árið 1997 fór ég vestur aftur þar sem ég tók að mér verkefnastjórn hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða í þrjú ár og sinnti þar ýmsum skemmtilegum verkefnum við uppbyggingu fyrir vestan á þeim tíma,“ segir Einar.

Hann hóf síðan störf hjá Vífilfelli eftir að hafa fengið símtal frá fyrrverandi kennara sínum úr Tækniskólanum, Friðriki Eysteinssyni sem þá var orðinn framkvæmdastjóri þar. Í millitíðinni hafði hann þó farið til Edinborgar í MBA nám.

Í frítíma sínum reynir Einar að fara sem oftast bæði vestur og að sinna áhugamálunum. „Núna er það helst veiðimennska, aðallega þá fluguveiði, en skotveiði aðeins líka. Það eru nokkrir túrar planaðir í sumar sem verður endurnærandi,“ segir Einar sem þó fer ekki mikið á veiðar fyrir vestan.

„En við förum alltaf nokkrum sinnum á ári vestur, til þess að upplifa kraftinn í vestfirsku fjöllunum. Við förum á hverju sumri og svo förum við til dæmis alltaf á Aldrei fór ég suður og Skíðavikuna um páskana. Ég fer helst bæði alltaf eitthvað á skíði, þó ég sakni gamla skíðasvæðisins uppi á Seljalandsdal, og eitthvað á tónleika. Fyrirtækið hefur tekið þátt í að styrkja tónlistarhátíðina í gegnum tíðina sem okkur hefur þótt vænt um að geta gert.“