Ný Krambúð mun opna við Lönguhlíð á morgun, miðvikudaginn 6. júní næstkomandi, kl. 12.00, en verslunin kemur í stað Sunnubúðar sem hefur verið lokuð síðasta mánuðinn vegna talsverðra breytinga.

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, segir þetta afar ánægjulegt skref. „[Það er m]ikill heiður að fá að taka við keflinu og skrifa næsta kafla í rótgróinni verslunarsögu hverfisins,“ segir Gunnar, en Sunnubúð hefur verið í eigu Samkaupa síðan árið 2016.

„Með endurbótunum ætlum við að koma betur til móts við nútíma þarfir viðskiptavina. Á þeim langa tíma sem verslun hefur verið starfrækt við Lönguhlíð hafa orðið gríðarlegar breytingar á samkeppnisumhverfinu og neysluháttum.“

Áður stök búð á Skólavörðustíg

Með opnun Krambúðarinnar í Lönguhlíð verða Krambúðirnar orðnar tíu talsins en hinar eru á hinum upprunalega stað í Skólavörðustíg í Reykjavík og svo í Kópavogi, Akureyri, Húsavík, Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Akranesi og á Selfossi.

„Við viljum stíga inn í nútímann og flétta saman kaupmanninn á horninu og samkeppnishæf verð,“ segir Gunnar. „Með tilkomu Krambúðarinnar munu um þrjú hundruð vörunúmer lækka í verði, svo sem mjólk, brauð, hveiti og smjör svo eitthvað sé nefnt og halda kjörorðunum okkar hagstætt fyrir heimilið hátt á lofti.“

67 ára verslunarsaga í hverfinu

Gunnar segir mikinn heiður fólginn í að taka við keflinu í Lönguhlíð og fá að skrifa næsta kafla í 67 ára verslunarsögu hverfisins. „Hér hefur verið verslun síðan árið 1951 og við erum meðvituð um að fjölmargir bera sterkar taugar til Sunnubúðar,“ útskýrir Gunnar.

„Við erum stolt af því að fá þetta tækifæri og munum leggja okkur fram um að varðveita og halda á lofti sögunni sem er hér allt umlykjandi. Meðal annars með því að setja upp sérstakan myndavegg þar sem stiklað er á umfangsmikilli verslunarsögu búðarinnar og höfum fengið með okkur gott fólk til að skerpa á henni með okkur. Við erum því mjög spennt að opna dyr Krambúðarinnar og taka á móti Hlíðarbúum.“

Sama starfsfólkið

Gunnar segir starfsfólk og viðskiptavini hafa tekið vel í breytingarnar, enda hafi eftirspurnin eftir breyttum háttum og ýmiss konar viðbótarþjónustu orðið sífellt meira áberandi. „Við munum halda uppteknum hætti og erum til staðar fyrir fólkið í hverfinu. Við erum ánægð með að njóta til þess liðsinnis sama starfsfólks og undanfarin ár,“ segir Gunnar.

„Við ætlum okkur að tvinna saman það besta úr fortíðinni og það vænlegasta til framtíðar í nýrri Krambúð.  Mikilvægur hluti af því er að geta stóreflt framboð okkar á tilbúnum réttum, samlokum, nýbökuðu brauði og góðu kaffi fyrir fólkið í hverfinu – sem og rýmkað opnunartímann verulega en með tilkomu Krambúðar verður opnað fyrr á morgnana og lokað seinna á kvöldin.“

Nýr opnunartími Krambúðarinnar verður frá klukkan 08.00 – 23.30 alla virka daga og 09:00 – 23.30 um helgar.