Í nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á matvöru var Krambúðin oftast með hæsta verðið, í 51 tilviki af 121 en Bónus oftast með það lægsta, í 81 tilviki.

Fjarðarkaup var næst oftast með lægsta verðið eða í 14 tilvikum en Krónan hefur lengi verið næst á eftir Bónus með lægstu verðin. Krónan var með lægsta verðið í 9 tilvikum og Nettó 7 tilvikum.

Krambúðin var oftast með hæsta verðið, í 51 tilviki af 121. Næst oftast mátti finna hæsta verðið í Hagkaup og Heimkaup en hvor verslun fyrir sig var með hæsta verðið í 23 tilvikum.

Í mörgum tilfellum var mjög mikill munur á hæsta og lægsta verði í könnuninni og mátti finna slík dæmi í flestum vöruflokkum. Þannig var yfir 60% munur á hæsta og lægsta verði í 35 tilvikum af 121 en þar af var hann í 19 tilvikum yfir 80%.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Ögurhvarfi, Krónunni Akrabraut, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup Spöng, Kjörbúðinni Garði, Krambúðinni Laugardal, Heimkaup.is, Netto.is og Krónu appinu.