Kreditkortanúmer og trúnaðarupplýsingar fjölmargra Íslendinga hafa verð gerð opinber eftir að gögnum sem tölvuþrjótar stálu frá upplýsingaveitunni Stratfor var lekið á internetið.

Umræddir tölvuþrjótar störfuðu undir merkjum LulzSec, sem er félagsskapur hakkara sem nú hefur að mestu verið upprættur. Hópurinn hefur helst unnið sér það til frægðar að hafa ráðist á heimasíðu bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

Félagsskapurinn hakkaði sig í lok árs 2011 inn á síðu Stratfor og lak í kjölfarið gögnum um viðskiptavini veitunnar á netið. Viðskiptablaðið hefur undir höndum gögn sem tekin voru ófrjálsri hendi frá Stratfor en þar má meðal annars finna upplýsingar um íslenska viðskiptavini Stratfor.

Þar má jafnframt finna tölvupóstssamskipti Íslendings sem veitir starfsmönnum Stratfor upplýsingar um gang mála á Íslandi í október 2008, nokkrum vikum eftir efnahagshrunið hér á landi.