Heildarvelta kreditkorta jókst um 5,6% í júní á þessu ári miðað við maí og var 27,7 milljarðar króna. Miðað við júní 2007 hefur veltan aukist um 16,6%.

Heildarvelta debetkorta var 34,5 milljarðar króna í júní sem er 2,4% aukning frá fyrri mánuði.

Þetta kemur fram á vef Seðlabanka Íslands.

„Í júní var samanlögð velta debet- og kreditkorta rúmir 62 ma.kr. en fyrir ári síðan var hún um 62,5 ma.kr. Þarna er um nafnstærðir að ræða og sökum mjög hárrar verðbólgu hefur orðið töluverður raunsamdráttur í kortaveltunn,“ segir í Vegvísi Landsbanka Íslands.

Í Vegvísi segir að líta megi á greiðslukortaveltu sem góðan mælikvarða á einkaneyslu hér á landi. Gera megi að því skóna að einkaneysla á 2. ársfjórðungi dragist töluvert saman að raungildi.