Fyrstu 20 dagana í desember minnkaði kreditkortaverslun, sem fór í gegnum Borgun hf., um 9-10% í krónum talið miðað við sama tíma í fyrra, að því er Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið. Raunminnkun kreditkortaveltu er enn meiri þar sem verðlag hefur hækkað um 17-18% á einu ári.

Hér er aðeins um tölur að ræða vegna viðskipta með kreditkort Borgunar, MasterCard og nokkur önnur kort, en Haukur sagði að ekki væri líklegt að veruleg frávik væru á þeim og þróun kreditkortaveltu í landinu í heild.

“Við vitum ekki hvort þessar tölur benda til varanlegrar minnkunar á notkun kreditkorta eða hvort hér sé um tímabundið ástand að ræða. Vitað er að í kringum 13-14 milljarðar króna fóru út úr bankakerfinu í reiðufé í október. Samkvæmt tölum frá Seðlabanka höfðu um 3 milljarðar skilað sér til baka fyrir síðustu mánaðamót, annað hvort beint í gegnum bankana eða í gegnum verslanir. Ég hef engar sambærilegar tölur fyrir desember en það er viðbúið að fólk sé að einhverju leyti að greiða fyrir jólainnkaupin með reiðufé sem það tók út í október síðastliðnum,“ sagði Haukur.