Notkun kreditkorta hefur breyst nokkuð frá bankahruninu sl. haust. Samkvæmt tölum frá Seðlabankanum um greiðslumiðlun hefur kreditkortavelta dregist jafnt og þétt saman síðustu mánuði.

Þannig var heildarvelta kreditkorta í marsmánuði 20,7 milljarðar króna samanborið við 24,7 milljarða á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn nemur því 16,3% milli ára en 7% milli mánaða.

Samdráttur á kreditkortanotkun kemur heim og saman við samdrátt í smásölu. Í marsmánuði dróst velta í dagvöruverslun saman um 16,6% milli ára, samkvæmt gögnum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar á Bifröst.

Í skýrslu Rannsóknarseturs fyrir mars var tekið fram að velta í dagvöruverslun á föstu verðlagi hefur aldrei áður dregist svo mikið saman á milli ára frá því að farið var að birta smásöluvísitöluna árið 2001 en meiru skiptir að stöðugur samdráttur hefur verið í dagvöruverslun frá því í ágúst á síðasta ári.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag og meðal annars rætt við Höskuld H. Ólafsson, forstjóra VALITOR. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .