Kaupás hefur höfðað mál á hendur Högum og krefst félagið rúmlega 233 milljóna króna skaðabóta. Málið snýst um hugsanlegt tjón sem verslunin Krónan er talin hafa orðið fyrir í svokölluðu mjólkurverðstríði á árunum 2005 til 2006. Áðurnefnd upphæð fellur undir aðalkröfu en varakrafan er mun lægri. Samkeppniseftirlitið sektaði Haga um 315 milljónir króna vegna málsins árið 2008 og komst að þeirri niðurstöðu að Bónus væri óheimilt að selja vörur undir kostnaðarverði.

Fjallað er um málið í skráningarlýsingu Haga frá í nóvember í fyrra og hugsanlega málshöfðun. Þar segir um málið fyrir fjórum árum að Hagar áfrýjuðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem staðfesti niðurstöðuna. Hagar höfðaði þá mál til að fá fyrrgreindum ákvörðunum snúið við og krafðist endurgreiðslu frá ríkinu á sektinni. Héraðsdómur Reykjavíkur tók undir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og áfrýjunarnefndar. Hagar áfrýjaði þá dómi héraðsdóms og staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu dómsins.

Mátu tjónið á 1,2 milljarða

Í skráningarlýsingunni segir að í kjölfarið hafi Kaupás fengið dómkvadda matsmenn til að meta hugsanlegt tjón sem Kaupás heldur fram að Krónan hafi orðið fyrir af völdum verðstríðsins. Tjónið nemur 1,2 milljörðum króna, samkvæmt mati Kaupáss. Niðurstaða matsmanna liggur hins vegar ekki fyrir, að því er segir í skráningarlýsingunni.

Í tilkynningu frá Högum segir að afstaða félagsins sé skýr. Félagið telji Kaupás ekki hafa orðið fyrir fjárhagslegum skaða enda hafi Kaupás átt frumkvæðið að verðstríðinu og undirverðlagningu. Hagar muni því taka til varna í málinu.

Skráningarlýsing Haga