*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 9. maí 2018 13:40

Krefja konur um að klæðast kjólum

Eflingu séttarfélagi bárust í gær kvartanir frá félagsmönnum þess hjá Hard Rock Cafe í Reykjavík vegna reglna um klæðaburð.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Eflingu séttarfélagi bárust í gær kvartanir frá félagsmönnum þess hjá Hard Rock Cafe í Reykjavík. Tilefni þessara kvartana voru breytingar á reglum fyrirtækisins um klæðaburð kvenna á vinnustaðnum. Í frétt á vef Eflingar segir að hingað til hafi konur á vinnustaðnum klæðst skyrtum og buxum, líkt og karlar, en nú krefst fyrirtækið þess að þær klæðist kjólum í stað skyrtna og buxna. Lögfræðingur Eflingar segir að þetta hafi mætt andstöðu starfsmanna fyrirtækisins.

Þær konur sem kvörtuðu til félagsins vildu áfram klæðast skyrtum og buxum á vinnutíma og jafnframt kom fram að kjólarnir sem þær áttu að klæðast væru bæði óþægilegir og ósmekklegir. Í bréfi sem lögfræðingur Eflingar sendi fyrirtækinur í dag er þess krafist að fyrirtækið láti tafarlaust af umræddum áformum.

Lögfræðingurinn segir að í bréfinu sé áréttað að gæta skuli jafnræðis milli kynja á vinnumarkaði og að fyrirætlanirnar samræmist ekki jafnréttissjónarmiðum. Starfsmenn skuli njóta virðingar í starfi sínu og eðlilegt er að taka tillit til óska þeirra og athugasemda varðandi einkennisklæðnað á vinnustað. Það á ávallt að vera undir starfsfólkinu sjálfu komið hvort það ákveði að klæðast skyrtu og buxum, eins og allir starfsmenn hafa gert hingað til eða kjólum.