Annata ehf., sölu- og þjónustuaðili Microsoft Dynamics 365 hér á landi, hefur stefnt bílaframleiðandanum Renault til greiðslu tæplega hálfs milljarðs króna. Aðilar málsins virðast vera sammála um fátt annað en að eitthvað hafi farið úrskeiðis.

Upphaf málsins má rekja aftur til vormánaða ársins 2016 en þá hafi Renault ákveðið að samræma hugbúnað á starfstöðvum sínum í Evrópu. Ákveðið hafi verið að hefja innleiðinguna hjá RRG Leman í Sviss. Verkefnið hafi verið boðið út og Annata valið til verksins eftir útboð. Annata tekur ekki undir þessa lýsingu. Í fyrsta lagi sökum þess að ekki hafi verið um útboð að ræða og í annan stað hafi fyrirtækinu ekki verið ætlað að þróa hugbúnaðarlausn heldur hafi Renault keypt rétt til að nota þær lausnir sem fyrir voru.

Samkvæmt samkomulagi skyldi vinna Annata hefjast á verkalýðsdaginn 2016 og henni vera lokið áður en árið rynni sit skeið. Í mars 2017 sendi bílarisinn Annata tilkynningu þess efnis að fyrirtækið hygðist ekki greiða fleiri reikninga vegna verksins. Ástæðurnar fyrir því væru að félaginu hefðu borist reikningar fyrir verk sem ekki hefðu verið samþykkt, hugbúnaðarlausnin væri haldin alvarlegum göllum og verkið komið langt fram úr kostnaðaráætlun. Renault rifti samkomulaginu með tilkynningu í nóvember 2017.

Af þeim sökum hefur Annata stefnt framleiðandanum til greiðslu þeirra reikninga sem Renault hefur hafnað. Samanlögð upphæð reikninganna er tæplega 2,5 milljónir evra, tæpar 330 milljónir íslenskra króna á gengi dagsins í dag, en þá á eftir að taka tillit til dráttarvaxta og vanefndaálags á dráttarvaxta. Þá krefst Annata einnig skaðabóta að fjárhæð 1,2 milljónir evra, rúmra 160 milljónir íslenskar, auk áfallins innheimtukostnaðar og málskostnaðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .