Jón Þór Ólafsson
Jón Þór Ólafsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Þetta er víst gríðarlega öflugur njósnabúnaður sem getur síað mikið magn upplýsinga,“ segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata sem sæti á í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Hann upplýsti á þingfundi á Alþingi í morgun að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hafi verið gestur nefndarinnar í dag. Þar lagði Jón Þór fyrir ríkislögreglustjóra  mynd sem sögð er af njósnabúnaði tengdur bandarískri stofnun er nefnist GRPO. Búnaðurinn er sagður vistaður hér á landi og á forræði íslenskra lögregluyfirvalda. „Samkvæmt okkar upplýsingum eru upplýsingarnar sendar til bandarískra yfirvalda,“ segir Jón Þór í samtali við VB.is.

Búnaðurinn er nefndur á nafn í fjölda skjala sem Wikileaks lak um samskipti bandarískra sendiráða. Jón Þór spurði ríkislögreglustjóra ýmissa spurninga út í búnaðinn og lét á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis bóka hvort embættið geti veitt upplýsingar um hann.

Haraldur Johannesen sagðist ekkert vita um búnaðinn en benti á að annars konar hlerunarbúnaður sé á forræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og áður hefur komið fram upplýsti spænska dagblaðið El Mundo í október síðastliðnum að Ísland sé á lista yfir 23 ríki sem hafi starfað náið með Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA). Ríkisstjórnin hefur þegar krafið stjórnvöld ytra svör um það hvort þetta sé rétt.