Nýlega barst tilkynning Ferðamálastofu þess efnis að tæplega 136 þúsund erlendir ferðamenn hefðu farið frá landinu í janúar síðastliðnum. Aukningin milli ára er gríðarleg eða um 75,3%, sú mesta sem mælst hefur. Þrátt fyrir, að því er virðist, blómlegt umhverfi ferðaþjónustunnar sendi elsta flugfélag landsins, Icelandair, engu að síður frá sér afkomuviðvörun þar sem félagið lýsir rekstrarumhverfinu sem óhagstæðu.

Þegar nánar er litið til afkomu stærstu flugfélaga heims kemur fljótt í ljós að barátta sú sem Icelandair háir um þessar mundir er ekkert einsdæmi. Harðari samkeppni, þá helst við lággjaldaflugfélög, hafa valdið því að meðalfargjöld hafa lækkað umfram spár og þrátt fyrir aukinn farþegafjölda dregst hagnaður félaga saman. Við það bætist svo óhagstæð þróun gjaldmiðla, óstöðugleiki í alþjóðaumhverfi og hækkandi olíuverð.

Stórtæk breyting á samkeppnisumhverfi

Flug
Flug
© vb.is (vb.is)

Það liggur í augum uppi að samkeppnisumhverfi íslensku flugfélaganna hefur snarbreyst frá árinu 2010. Samkvæmt gögnum Isavia flugu aðeins tvö félög til og frá landinu allt árið um kring árið 2005 og voru þau bæði íslensk, þ.e. Icelandair og Iceland Express. Árið 2010 hafði SAS bæst í hópinn og voru þá þrjú félög sem sinntu heilsársflugi til og frá landinu. Sex árum síðar, árið 2016, hafði samkeppnisumhverfið hins vegar snarbreyst og 11 flugfélög farin að fljúga til og frá landinu allt árið um kring og nemur aukningin því um 450%.

Á sama tímabili, það er frá árinu 2005 til 2016, hefur fjöldi þeirra flugfélaga sem fljúga hingað yfir sumartímann einnig aukist úr 8 í 25 eða sem nemur tæpri 213%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.