Bakkavararbróðurnum Lýði Guðmundsson hefur verið stefnt í Bretlandi vegna greiðslu 9,3 milljóna punda eða 1,7 milljarðs króna vegna láns sem félag í hans eigu tók hjá Kaupthing Luxembourg vorið 2006.  Lánið notaði  Lýður til kaupa á fasteign  í London fyrir 2,4 milljarða króna.

Að fasteignin hafi kostað skildinginn þarf ekki að koma á óvart enda eru í henni ein 11 herbergi og hún er í auðmannahverfinu Knightsbridge við miðborg London. Þar býr, eða á fasteignir, margt af ríkasta fólki heimsins, m.a. rússneski olígarkinn Roman Abramovich, kokkurinn Nigella Lawson, Hugh Grant og Sean Connery, svo einhverjir séu nefndir.

Stefnandinn Pillar Securisation, sem tók yfir hluta af eignum Kaupþings í Lúxemborg, telur að lánið hafi verið veitt félagi Lýðs með persónulegri ábyrgð hans, en ekkert mun hafa verið greitt af því frá því í nóvember. Lögmenn Lýðs hafna því að lánið hafi verið veitt með persónulegri ábyrgð hans og telja heldur ekki rök fyrir að gjaldfella allar eftirstöðvar lánsins. Því mun væntanlega koma til kasta dómstóla að skera úr um það.

-Nánar í Viðskiptablaðinu