Ásmundur Helgason og Elín Ragnarsdóttir, eigendur kaffihússins Gráa kattarins krefjast 18,5 milljóna króna í skaðabætur frá Reykjavíkurborg vegna tafa á framkvæmdum við Hverfisgötu. Hjónin telja borgina ekki hafa sinnt upplýsingaskyldu sinni og einnig hafi hún ekki gripið til aðgerða til að bregðast við töfunum sem urðu á framkvæmdunum. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Líkt og mikið hefur verið fjallað um ríkti mikil óánægja meðal rekstraraðila sem urðu fyrir raski vegna framkvæmda við Hverfisgötu, auk fleiri gatna í miðbæ Reykjavíkur. Til stóð að framkvæmdunum, sem hófust í maí á síðasta ári, yrði lokið í ágúst en framkvæmdum lauk ekki fyrr en í nóvember.

Hjónin benda á, í kröfubréfi til Reykjavíkurborgar vegna málsins, að slæmt aðgengi að kaffihúsinu á meðan framkvæmdum stóð hafi valdið samdrætti í rekstri þess. Samdrátturinn hafi verið 20-25% en mest farið upp í 38% í október. Auk þess hafi orðspor staðarins beðið hnekki vegna slæmra umsagna frá erlendum ferðamönnum á ferðasíðum, sem kvörtuðu m.a. yfir slæmu aðgengi að staðnum. Þá kveðjast eigendurnir ekki hafa verið upplýstir um að framkvæmdirnar stæðu til og því hafi þau ekki fengið fyrirvara til að bregðast við þeim.