Schenker AG, dótturfélag þýska járnbrautarfyrirtækisins Deutsche Bahn AG (DB) hefur höfðað 2,5 milljarða dollara (310 milljarða króna) skaðabótamál á hendur nokkrum flugfélögum vegna verðsamráðs í vöruflutningum. Málið var höfðað innan Evrópusambandsins, í Þýskalandi, og í Bandaríkjunum.

Í Þýskalandi hljóðar skaðabótakrafan á hendur flugfélögunum upp á 2,19 milljarða dollara (272 milljarða króna) auk vaxta. Skaðabótakrafan í Bandaríkjunum hljóðar upp á 370 milljónir dollara (46 milljarða króna). Bandarískir dómstólar hafa heimild til að þrefalda þá upphæð og því gæti hún endanum numið 1,1 milljarði dollar (138 milljörðum króna). Þá yrði heildarsektin tæpir 3,3 milljarðar dollara (410 milljarðar króna).

Á meðal flugfélaga sem Shenker AG hefur lögsótt eru Air France, British Airways, KLM, Lufthansa, Air Canada, Swiss Airlines, Cargolux, Singapore Airlines og Qantas.