Undirskriftalisti hefur verið stofnaður á netinu sem krefst þess að Ólöf Nordal innanríkisráðherra segi af sér í kjölfar frétta um brottflutning albanskrar fjölskyldu sem var neitað um landvistarleyfi hérlendis.

Maður að nafni Bogi Reynisson er skráður fyrir undirskriftalistanum, en krafan hljóðar svo:

Ólöf Nordal Innanríkisráðherra Íslands er hér með krafin um að sækja aftur þær fjölskyldur sem sendar voru úr landi í nótt ellegar hætta störfum sem innanríkisráðherra án tafar.

Innanríkisráðherra hefur daginn (10 desember, alþjóðlegur dagur mannréttinda) til að senda aftur eftir þeim fjölskyldum sem voru reknar úr landi með lögregluvaldi, eða segja skilyrðislaust af sér sem ráðherra.

Þetta er krafa okkar sem skrifum undir.

Tæplega 900 manns hafa skrifað undir listann við skrif fréttarinnar og fer tölu undirskrifta hækkandi hratt.

Fjölskyldan albanska var flutt héðan í lögreglufylgd klukkan 4 í nótt og flugu með leiguflugi á vegum Útlendingastofnunar til Albaníu. Hún hafði leitað hingað til lands í kjölfar hótana glæpagengja, auk þess sem þau leituðust eftir því að finna læknishjálp hérlendis, en Kevi, þriggja ára sonur hjónanna Kastrijots og Xhuliu, glímir við slímseigjusjúkdóm.

Mikillar reiði gætir meðal þeirra sem hafa tjáð sig á samfélagsmiðlum og í pistlaskrifum, en meðal þeirra sem hafa sagt sína skoðun á málinu eru Illugi Jökulsson, Auður Jónsdóttir, Kristinn Hrafnsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.