Bresk stjórnvöld munu krefja rússnesk stjórnvöld framsals á athafnamanninum Andrei Lugovoi vegna morðsins á fyrrum leyniþjónustumanninum Alexander Lítvínenko. Þar með er komin upp ný staða í einhverju dularfyllsta máli síðari tíma, en Lítvínenko lést í London í nóvember í fyrra eftir að eitrað hafði verið fyrir honum með pólóníum. Rannsókn málsins hefur orðið að spennuvaldi milli stjórnvalda í London og Moskvu og ljóst er að framsalskrafan geri ekkert til þess að draga úr honum.

Í gær tilkynnti saksóknaraembætti Bretlands að rannsókn lögregluyfirvalda hafi leitt í ljós að fyllsta ástæða væri til að kæra Lugovoi fyrir morðið á Lítvínenko. Þeir hittust á barnum á Millenium hótelinu þann 1. nóvember í fyrra en síðar sama dag tók Lítvínenko að kvarta yfir eymslum. Tuttugu og tveim dögum síðar gekk hann á vit feðra sinna en á sjúkrabeðinum fullyrti hann að flugumenn á vegum stjórnvalda í Moskvu hefðu eitrað fyrir sér.

Dauðastríð og andlát Lítvínenko vakti mikla athygli og margir settu það í samhengi við morðið á rússneska blaðamanninum Önnu Polikovskaya, en hún var myrt með köldu blóði í Moskvuborg í októbermánuði. Bæði Polikovskaya og Lítvínenkó áttu það sameiginlegt að hafa gagnrýnt Vladímír Pútín og ríkisstjórn hans harðlega. Polikovskaya hafði skrifað afhjúpandi greinar um framferði rússneska hersins í Tsjetsjeníu og Lítvínenkó hafði ásakað stjórnvöld í Moskvu um að standa fyrir hryðjuverkum gegn eigin borgurum til þess að réttlæta aðgerðir í héraðinu. Reyndar hafa fleiri dularfullir dauðdagar undanfarin ár í Rússlandi verið bendlaðir við ríkisstjórn Pútíns af gagnrýnendum hans.

Ásökunum ætlað að gera Rússa tortryggilega
Pútín hefur statt og staðfastlega neitað þeim ásökunum og ítrekað að hvorki rússneska ríkisvaldið né neinn í nánum tengslum við valdamenn hafi eitthvað haft með dauða Lítvínenko að gera. Viðkvæðið í Kreml hefur meðal annars verið að morðingjar Lítvínenko komi úr röðum þeirra sem sjá hag sínum borgið með því að gera stjórnvöld tortryggileg í augum Vesturlanda. Rétt eins og í Bretlandi var rannsókn á málinu fyrirskipuð í Rússlandi.

Litlar líkur eru á því að Lugovoi verði framseldur. Interfax fréttastofan hefur eftir talsmanni ríkissaksóknarembættisins í Rússlandi að þar sem að Lugovoui væri rússneskur ríkisborgari heimiluðu lög landsins ekki slíkt framsal. Hinsvegar hefur verið bent á að bæði Rússland og Bretland eru aðilar að Evrópusamningnum um framsal sakamanna og sú aðild kann að opna lagaleið framsals. En sérfróðir telja aðra þætti eigi síður útiloka að Lugovoi verði framseldur.

Borisar þáttur Berezovsky
Rússnesk stjórnvöld hafa ítrekað - en án árangurs - krafið ríkisstjórn Bretlands um að framselja útlagann og auðmanninn Boris Berezovsky, sem býr nú í London. Berezovsky er eftirlýstur fyrir efnahagsbrot og fleiri glæpi. Hann er einn þeirra ólígarka sem sáu sæng sína upp reidda eftir að Pútín tók að þjarma að þeirri stétt manna á sínum tíma og hefur verið í útlegð allar götur síðan. Yfirlýsingar hans um nauðsyn valdbeitingar til þess að steypa Pútín af stóli fyrr á þessu ári gerðu það að verkum að rússnesk stjórnvöld tóku að leggja enn meiri þrýsting á framsal hans. Segja þau bresk stjórnvöld halda hlífiskildi yfir manni sem boði ofbeldi gegn lögmætum stjórnvöldum í Rússlandi og því verði ekki komist hjá framsali. Ljóst er að afstaða Rússa í máli Lítvínenkó verður ekki skilin án þess að setja það í samhengi við mál Berezovsky.

Reyndar tengist Berezovsky bæði Lítvínenkó og Lugovoi. Þeir fyrrnefndu þekktust auk þess sem að Lugovoi starfaði eitt sinn sem öryggisvörður Berezovsky áður en að hann flúði land. Síðan þá hefur Lugovoi auðgast á viðskiptum í Rússlandi. Berezovsky sagði í viðtali við BBC í febrúar að Lítvínenkó hafi sagt við hann að Lugovoi, sem hann segir jafnframt vera nátengdan Pútín, hefði eitrað fyrir sér. Lugovoi hefur neitað því opinberlega að hafa verið viðriðinn málið. Í Rússlandi heyrast aðrar sögur. Í frétt breska blaðsins Guardian er hermt að ósætti milli Berezovsky og Lítvínenko hafi leitt til dauða hans. Haldið hefur verið fram að Berezovsky hafi skorið á fé til hans sem hafi leitt til þess að hann hafi þurft að finna upp aðrar leiðir til þess að afla tekna og það hafi leitt til þess að hann hafi lent í vafasömum viðskiptum.

Ljóst er að bresk stjórnvöld munu freista þess að málinu verði ekki spyrt saman við tvíhliða samskipti ríkjanna tveggja sem og alþjóðamál. Ólíklegt er að það takist verði gengið hart fram með framsalskröfuna gegn Lugovoi í ljósi þess hvernig samskipti Rússa gagnvart sumum Evrópuríkjum hafa verið að undanförnu. Rússar eru í feikilega sterkri stöðu sökum þess hve Evrópa er háð þeim um innflutning á olíu og gasi auk þess sem að þeir eru lykilhlutverki þegar kemur að lausn aðkallandi mála í alþjóðakerfinu: Deilunni um kjarnorkuáform klerkastjórnarinnar í Íran og framtíðarstöðu Kosovo-héraðs.