Lögmenn Jóns Þorsteins Jónssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Byrs, Ragnars Z. Guðjónssonar, fyrrverandi forstjóra Byrs, og Styrmis Þórs Bragasonar, fyrrverandi forstjóra MP banka, kröfðust þess í morgun að máli sérstaks saksóknara gegn þeim, vegna svonefndra Exeter viðskipta, yrði vísað frá.

Lögmaður Jóns Þorsteins er Reynir Karlsson hrl., Lögmaður Ragnars er Ólafur Eiríksson hrl. og lögmaður Styrmis Þórs Ragnar H. Hall hrl.

Björn Þorvaldsson, sem sækir málið fyrir hönd sérstaks saksóknara, fær frest til 20. október til þess að leggja fram greinargerð þar sem því er svarað er fram kemur í greinagerðum ákærðu. Ákæran á hendur þremenningunum er sú fyrsta sem komið hefur frá embætti sérstaks saksóknara.

Málflutningur vegna frávísunarkröfunnar fer fram 3.nóvember nk. að því er ákveðið var í morgun.

Málið snýst um lánvetingar sem Byr sparisjóður veitti félaginu Exeter Holding til að kaupa stofnfjárbréf í Byr. Um 200 milljóna króna lán til viðbótar var svo veitt í desember til þess að kaupa stofnfjárbréf, sem voru í eigu Ragnars, Jóns Þorsteins og MP banka, sem Styrmir stýrði. Eru þessi viðskipti talin hafa falið í sér umboðssvik en Styrmir er að auki ákærður fyrir peningaþvætti fyrir að hafa tekið við fjármunum sem aflað var með "umboðssvikum meðákærðu, þrátt fyrir að honum hefði mátt vera ljóst, í ljósi allra aðstæðna, að lán það sem meðákærðu útveguðu frá Byr sparisjóði til viðskiptanna var veitt með ólögmætum hætti," eins og orðrétt segir í ákæru.

Lögmenn ákærðu, dómarinn Arngrímur Ísberg og Björn Þorvaldsson ræddu það í morgun hversu langan tíma málflutningur vegna frávísunarkröfu ákærðu gæti tekið. Arngrímur spurði hvort það væri ekki óþarft að "margendurtaka" sömu lagarökin fyrir frávísun í ræðum og hvort lögmenn ákærðu gætu ekki talað sig saman um það. Reynir Karlsson, lögmaður Jóns Þorsteins, brosti þá við og sagði: "Góð vísa er aldrei of oft kveðin". Ragnar og Ólafur hlógu við. Arngrímur sagði það vissulega vera rétt, að góð vísa væri aldrei of oft kveðin.