Lögreglumennirnir sem sérstakur saksóknari hefur kært fyrir brot á þagnarskyldu í starfi unnu ekki bara fyrir þrotabú Milestone heldur einnig hjá slitastjórn Glitnis. Allt samhliða störfum hjá sérstökum saksóknara.

Tvímenningarnir stýrðu rannsókn Vafningsmálinu svokallaða og er málið nú í uppnámi. Þetta kemur fram í Fréttatímanum í dag. Þar segir að mennirnir hafi stýrt rannsókn Vafningsmálsins um leið og þeir skrifuðu skýrslu fyrir þrotabú Milestone. Vafningsmálið snýst um 10 milljarða króna lántöku Milestone hjá Glitni og Sjóvá í febrúar 2008 og er fyrirtaka í því máli 6. júní næstkomandi.

Í Fréttatímanum segir meðal annars: „Samkvæmt heimildum Fréttatímans telja Lárus Welding og Guðmundur Hjaltason, sem ákærðir hafa verið fyrir aðkomu sína að Vafningsmálinu svokallaða, líklegt að sérstakur saksóknari neyðist til að fella málið gegn þeim niður þar sem grundvallarákvæði laga um rannsókn mála hafi verið brotin.“ Fréttatíminn segir Lárus og Guðmund íhuga málshöfðun gegn sérstökum saksóknara á grundvelli þess að hann hafi brotið gegn mannréttindum þeirra við rannsókn málsins.