Lagardère Travel Retail, sem rekur veitingasölu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, hefur farið þess á leit við sýslumannsembættið á höfuðborgarsvæðinu að lögbann verði lagt á afhendingu Isavia ohf. á mikilvægum trúnaðargögnum um fyrirtækið til þriðja aðila sem Isavia hefur í sinni vörslu í kjölfar samkeppni um leigu á aðstöðu undir verslunar- og veitingarekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2014 eftir að úrskurðarnefnd upplýsingamála kvað á um að upplýsingarnar skyldu afhentar.

Um er að ræða viðkvæmar fjárhagsupplýsingar og viðskiptaskilmála um starfsemi Lagardère að því er kemur fram í fréttatilkynningu en einnig segir að afhending gagnanna væri brot á trúnaðarskyldu Isavia við Lagardère og á samkeppnislögum nr. 44/2005.

Forsaga málsins er sú að Lagardère tók þátt í samkeppni ásamt fleiri fyrirtækjum, innlendum og erlendum um leigu á aðstöðu undir verslunar- og veitingarekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vorið 2014. Aðrir þátttakendur voru ma. Icelandair, Joe & the Juice, SSP frá Bretlandi auk fjölda annarra fyrirtækja. Lagardère og fleiri aðilar voru valdir sem rekstraraðilar  í þeirri samkeppni og hefur nú rekið veitinga- og kaffihús á flugstöðinni í rúmlega tvö ár.

Í tilkynningunni kemur fram að Lagardère eins og hin fyrirtækin, sem öll eru í  samkeppnisrekstri, hafi skrifað undir ákvæði um trúnaðarskyldu við  Isavia um meðferð viðskipta- og fjárhagsupplýsinga. Isavia hafi þó engu að síður nú þegar afhent mikið magn viðkvæmra trúnaðargagna um fyrirtækin til keppinautar þeirra þar sem þó var, eftir tilmæli frá Samkeppniseftirlitinu, strikað yfir viðkvæmustu upplýsingarnar. Samkeppniseftirlitið ályktaði að afhending þeirra kynni að fela í sér röskun á samkeppni. Lagardére telur að þau gögn sem nú er búið að afhenda ættu að varpa ljósi á hvað eina sem gerðist í aðdraganda og eftir samkeppnina árið 2014 en úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur kveðið á um að afhenda skuli þriðja aðila gögnin um fjárhag og rekstur Lagardère í heild sinni, án yfirstrikana.

Þá segir að þær upplýsingar sem Isavia fyrirhugar nú að afhenda séu taldar einar viðkvæmustu trúnaðarupplýsingar sem fyrirtækið býr yfir, eða fjárhagsupplýsingar og viðskiptaskilmálar um allar rekstrareiningar fyrirtækisins á Flugvelli Leifs Eiríkssonar.

Ennfremur að fyrirhuguð afhending trúnaðargagna í heild sinni af hálfu Isavia til samkeppnisaðila Lagardère, sé til þess fallin að valda óafturkræfu og ómetanlegu tjóni fyrir starfsemi Lagardère. Því hafi beiðni um lögbann á Isavia um afhendingu þessara gagna verið lögð fram.