Krafist er 14 til 16 mánaða fangelsisrefsingar yfir athafnamanninum Eiríki Sigurðsson, sem löngum var kenndur við klukkubúðina 10-11, og þrefaldrar sektargreiðslu í stað tvöfaldrar eða sem nemur tæpum 122 milljónum króna, að sögn fréttastofu RÚV . Embætti sérstaks saksóknara ákærði Eirík og Hjalta Magnússyni, endurskoðanda hans, í byrjun árs vegna meiri háttar brota á skattalögum.

Aðalmeðferð fór fram í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Eiríkur er sakaður um að hafa vantalið fjármagnstekjur sínar um 800 milljónir króna af afleiðusamningum árið 2007 og komið sér undan því að greiða 81,3 milljónir króna í skatt.

RÚV hefur eftir Ásmundu Björg Baldursdóttur saksóknarfulltrúa að um stórkostlegt hirðuleysi hafi verið að ræða af hálfu beggja manna. Þeir hafi átt að vita betur við skattframtalsgerðina. Hún sagði ennfremur ljóst að um ásetningsbrot væri að ræða.

RÚV segir jafnframt að fram hafi komið í máli Guðna Ásþórs Haraldssonar, verjanda Eiríks, að skilyrði fyrir refsingu sé m.a. Eiríkur hafi skilað efnislega röngu framtali. Þau skilyrði séu hins vegar ekki uppfyllt. Hann segir innsent skattaframtal hafa verið efnislega rétt og hvergi hafi rangar upplýsingar verið gefna upp. Hann hafi haft fulla heimild í lögum til að draga tap frá hagnaði í hlutabréfaviðskiptum sínum.