Íslandsbanki krefst liðlega milljarðs í bætur frá Jóni Þorsteini Jónssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Byrs, og Ragnari Z. Guðjónssyni, fyrrverandi forstjóra bankans. Byr veitti félaginu Exeter 1100 milljóna króna lán frá október til desember 2008. Féð var notað til þess að kaupa stofnfjárbréf af MP banka, af félagi í eigu Ragnars og síðan af Jóni Þorsteini.

Þeir félagar voru, ásamt Styrmi Bragasyni, þáverandi forstjóra MP banka, ákærðir og dæmdir fyrir umboðssvik vegna þessarar lánveitinga. Þeir Jón Þorsteinn og Ragnar voru dæmdir í Hæstarétti í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir brotið. Styrmir hlaut vægari dóm.

Í fyrstu fyrirtöku málsins skaðabótamálsins, sem fram fór í morgun, lögðu lögmenn þeirra Ragnars og Jóns Þorsteins fram frávísunarkröfur fyrir þeirra hönd. Málflutningur um frávísunarkröfuna fer fram í apríl.

Þegar sérstakur saksóknari ákærði upphaflega í Exeter málinu lagði BYR fram kröfuna á hendur þeim Jóni Þorsteini og Ragnari Z. Aldrei var dæmt í því máli. Síðar tók Íslandsbanki yfir BYR og það er ástæðan fyrir því að Íslandsbanki er sækjandinn í þessu máli.