Hundruð þúsunda voru samankomin í miðborg London í gær til að krefjast nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Ríkisstjórn Theresu May hefur útilokað slíka atkvæðagreiðslu. Financial Times greinir frá .

Skipuleggjendur kröfugöngunnar – sem ljóst er að er sú fjölmennasta um málið til þessa – segja hana hafa talið um 700 þúsund manns, og vera þá fjölmennustu síðan 2003, þegar um milljón manns mótmæltu Íraksstríðinu. Lögregluyfirvöld vildu ekki gefa út áætlaðan fjölda.

Fulltrúar þriggja helstu stjórnmálaflokka landsins – Anna Soubry úr Íhaldsflokknum, Chuka Umunna úr Verkamannaflokknum, og leiðtogi Frjálslyndra Demókrata, Vince Cable – héldu ræður á Alþingistorgi (Parliament Square), sem líkja má við Austurvöll hér á landi.

„Það er ljóst að við erum fjöldinn, við erum að sigra rökræðuna við þá sem kusu útgöngu,“ er haft eftir Soubry. Umunna sagði útgöngusinna hafa reynt að ala á sundrung milli hinna ýmsu landshluta Bretlands, en vandamálin væru allsstaðar þau sömu, og útganga væri ekki lausnin við þeim, heldur myndi þvert á móti gera þau enn verri.

Þá sagði Nicola Sturgeon, æðsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðflokksins, sem ávarpaði mannfjöldann á myndbandi, það vera alveg á hreinu að ef málið kæmi til umræðu þingsins myndi flokkurinn styðja þjóðaratkvæði þar sem einn valkosturinn yrði að hætta við útgöngu.