Bæjarráð Hornafjarðar krefst þess að í neyðartilfellum verði svokölluð neyðarbraut, það er flugbraut sem liggur í norðaustur/suðvestur á Reykjavíkurflugvelli, haldin opin meðan ekki séu tiltækar aðrar lausnir í sjúkraflutningum. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Eins og víða var fjallað um í fjölmiðlum komst hjartveikur maður úr bænum ekki á Landspítalann skömmu fyrir áramót vegna veðurfarsaðstæðna.

Hefði getað lent ef brautin verið opin

Þá gat sjúkraflug frá Mýflugi ekki flutt hann til höfuðborgarinnar, en flugmaður félagsins sagði að við þær veðurfarsaðstæður sem þá voru uppi hefði hann getað nýtt sér neyðarbrautina hefði hún enn verið opin.

Henni var lokað um mitt síðasta ár á grundvelli skipulagsbreytinga Reykjavíkurborgar til að rýma fyrir byggð við flugbrautarendann.

Í bókun bæjarstjórnar er bent á að bærinn sé afskekktur og það sé ekki óalgengt að hringvegurinn lokist annað hvort til austurs eða vesturs, eða jafnvel í báðar áttir vegna veðurs. Þegar þörf sé á liðsauka sé langt í næstu aðstoð, sjúkrahúsið á Norðfirði sé í 360 km fjarlægð og Selfoss í 400 km fjarlægð, „sem er langur akstur með alvarlega veikt fólk,“ segir í fréttinni.

„Það er grundvallaratriði að á hverjum tíma séu tryggðar samgöngur af landsbyggðinni við Landsspítala Háskólasjúkrahús sem er hefur þá skildu að sinna neyðarþjónustu við alla landsmenn.“

Efast um gagnsemi samsvarandi brautar í Keflavík

Í síðustu viku kom yfirlýsing frá Innanríkisráðuneytinu um að skoða opnun norðaustur/suðvestur flugbrautar á Keflavíkurflugvelli, en forseti Flugmálafélags Íslands hefur efasemdir um að slík flugbraut geri sama gagn og sú í Reykjavík.

„Þau veðurskilyrði sem eru á þeim tíma sem neyðarbrautin myndi annars nýtast hafa ekki verið könnuð,“ segir hann í annarri frétt RÚV.

„Þannig að það er ekki gefið þó svo að þessi braut verði opnuð, að hún myndi koma algjörlega í staðinn fyrir neyðarbrautina, fyrir utan óhagræðið af því að hafa lendingarstað svona langt frá spítalanum.“