Stjórnvöld víðs vegar um heiminn hafa að undanförnu krafið Facebook um persónuupplýsingar notenda í meiri mæli en áður. Þannig jukust beiðnir stjórnvalda um persónuupplýsingar frá fyrirtækinu um 24% á fyrstu sex mánuðum ársins. Voru beiðnirnar þá 35 þúsund talsins.

Á síðasta ári fengu bandarísk stjórnvöld dómsúrskurð frá dómstólum um að Facebook bæri að afhenda persónuupplýsingar yfir 400 notenda í tengslum við fjársvikamál. Var fyrirtækinu þá gert skylt að afhenda upplýsingar í formi mynda og persónulegra skilaboða, auk annarra upplýsinga.

Facebook hefur hins vegar áfrýjað málinu til æðri dómstóls og krefst þess að stjórnvöld skili upplýsingunum aftur til fyrirtækisins. Niðurstaða liggur ekki enn fyrir.