Flugfélagið Play, sem hyggst hefja flug til og frá landinu í samkeppni við Icelandair þegar skilyrði á flugmarkaði batna, hefur sent inn kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem krafist er þess að ESA dragi samþykki sitt fyrir ríkisábyrgð íslenska ríkisins til handa Icelandair til baka. Hefur ESA þegar brugðist við kvörtun Play með því að óska eftir viðbrögðum frá íslenskum stjórnvöldum.

„Við sendum kvörtun til ESA vegna þess hvernig málið var afgreitt. ESA er búin að taka upp málið og bíður nú eftir viðbrögðum íslenskra stjórnvalda áður en málið fer lengra. Krafa okkar er að sú ákvörðun ESA um að gefa grænt ljós á ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair verði dregin til baka, þar sem við teljum ákvörðunina ekki byggða á réttum forsendum," segir Arnar Már Magnússon, forstjóri Play.

Arnar Már bendir á að líkt og komi fram í umsögn Play um frumvarp til laga um ríkisábyrgðir til Icelandair, séu miklar líkur á því að ef Icelandair nýtir lánalínur með ríkisábyrgð lendi skuldirnar á ríkissjóði. Veruleg áhætta felist í ríkisábyrgðinni sem jafnframt sé háð því að áætlanir Play um að hefja flugstarfsemi gangi ekki eftir. Þannig sé skattfé sett að veði gegn áformum Play.

Í umsögninni segir jafnframt að í þessu máli muni „koma til skoðunar hvort í ýmsum þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til að hálfu stjórnvalda felist ólögmæt ríkisaðstoð til Icelandair Group, sem ekki hafi verið tilkynnt og fengist samþykkt af hálfu ESA".

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .