Velferðarráðuneyti vill fá að vita hversu margir eru á biðlistum eftir félagslegu húsnæði. Í því skyni hefur ráðuneytið sent öllum sveitarfélögum landsins fyrirspurn þess efnis. Ætlunin er meðal annars að kanna hvort sveitarfélögin sinni lögboðnu hlutverki sínu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Þá óskar ráðuneytið eftir upplýsingum eftir hversu margir hafa sótt um á seinasta ári og á fyrstu sex mánuðum þessa árs, en einnig hversu mörgum hefur verið synjað um félagslegt húsnæði og hversu mörgum hefur verið úthlutað.

Sveitarfélög hafa frest til 8. ágúst til að svara fyrirspurn velferðarráðuneytis samkvæmt tilkynningu á vef þess.