Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, krefst þess að haldið verði almennt prófkjör í Reykjavík. Félagið segir í tilkynningu að það leggist gegn öllum hugmyndum um uppstillingu á lista og telur að almennt prófkjör, þar sem allir flokksmenn í Reykjavík fái að kjósa, sé farsælasta leiðin til að velja sigurstranglegan lista fyrir komandi borgarastjórnarkosningar.

VB.is hefur fjallað nokkuð um það hvernig skipa á á lista sjálfstæðisfmanna fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Í gær kom fram að stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík , muni leggja fram tvær tillögur um það hvernig skipað verði á lista. Annars vegar verður lögð fram tillaga um leiðtogaprófkjör, þar sem allir sjálfstæðismenn fá að kjósa, en síðan komi það í hlut fulltrúaráðsins að velja aðra menn á listanum. Hins vegar verði farin sú leið að halda hefðbundið prófkjör þar sem allir sjálfstæðismenn geta valið allan listann.

Fulltrúaráðið fundar í kvöld þar sem endanleg ákvörðun verður tekin um það hvernig valið verður á listann.

Heimdallur segir hins vegar það mikilvægt að gefa öllum reykvískum sjálfstæðismönnum tækifæri á að segja skoðun sína á frambjóðendum í prófkjöri.