Mikill fjöldi starfsmanna bandarísku flugfélganna American Airlines og US Airways hafa boðið til kröfugöngu í Washington til að þrýsta á um samruna flugfélaganna . Unnið hefur verið að sameiningunni lengi en með henni verður til eitt stærsta flugrekstrarfélag í heimi.

Dómsmálayfirvöld í Bandaríkjunum óttast að samruni flugfélaganna valdi því að verð á flugfargjöldum og aðrar álögur hækki frá því sem nú er. Af þeim sökum var mælt gegn samrunanum í síðasta mánuði . Þetta var jafnframt annað skiptið á 12 árum sem dómsmálayfirvöld koma í veg fyrir að US Airways renni saman við annað flugfélag. Fyrra skiptið var árið 2001 þegar samruni þess við United var í bígerð.