Félag vélstjóra- og málmiðnaðarmanna krefst þess að hugmyndir sínar um kaup og fjármögnun á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna verði strax settar í vinnslu og framkvæmd. Þetta kemur fram í ályktun félagsfundar sem haldinn var á dögunum.

Miðað er við að keyptar yrðu tvær Super Puma þyrlur. Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, segir í samtali við VB.is að hann hafi fyrst reifað hugmyndirnar árið 2009. Árið 2011 voru svo mótaðar tillögur um aðkomu lífeyrissjóða að verkefninu.

Guðmundur segir í samtali við VB að með þessari leið sem VM hafi kynnt sé ávöxtun lífeyrissjóða af láninu tryggð. Þá er gert ráð fyrir að verði þessi leið farin geti sparnaður ríkissjóðs numið um 100 milljónum króna miðað við núverandi fyrirkomulag. Í dag á Landhelgisgæslan eina þyrflu af gerðinni Super Puma, TF-LÍF, en leigir tvær þyrlur af erlendum aðilum. Í tillögum VM er jafnframt gert ráð fyrir því að Landhelgisgæslan eignist vélarnar í lok samningstímans.

Guðmundur segist hafa kynnt hugmyndirnar fyrir Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi innanríkisráðherra, á meðan hann gegndi embætti. Hann hefur hins vegar ekki kynnt hugmyndirnar fyrir nýjum ráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.