Stjórn Eimskips ákvað í dag að leggja fram kröfu skv. 102. gr. laga um meðferð sakamála, þess efnis að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á félaginu og samstæðufélögum þess, sem staðið hefur yfir í tæp tíu ár, verði hætt. Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallarinnar. Krafan verður lögð fram í dag hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

„Kröfur sínar reisir Eimskip meðal annars á því að rannsókn Samkeppniseftirlitsins hafi formlega verið felld niður í júní 2015. Þá byggi rannsóknin á ólögmætri haldlagningu gagna og að brotið hafi verið gegn hlutlægnisskyldu Samkeppniseftirlitsins og réttindum Eimskips við rannsóknina. Auk þess hafi Samkeppniseftirlitið í raun sinnt lögreglurannsókn sem því er óheimilt að gera samkvæmt lögum. Vegna athafna sinna verði starfsmenn Samkeppniseftirlitsins að teljast vanhæfir í skilningi stjórnsýslulaga," segir í tilkynningunni.

„Kröfurnar byggjast ennfremur á því að rannsókn Samkeppniseftirlitsins beinist að röngum lögaðilum vegna verulegs hluta þess tímabils sem til rannsóknar er. Þá hafi framkvæmd rannsóknarinnar verið með þeim hætti að stór hluti þeirra meintu brota sem til rannsóknar eru teljist fyrnd. Þessir ágallar á rannsókninni séu með þeim hætti að rannsókn Samkeppniseftirlitsins sé ólögmæt og því beri að fella hana niður. Eimskip hefur samhliða skrifað bréf til stjórnar Samkeppniseftirlitsins þar sem vakin er athygli á þeim starfsháttum Samkeppniseftirlitsins sem kröfur Eimskips byggja á."