*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 25. júní 2020 11:41

Fær 1,5 milljónir vegna orlofs

Jóhannes Ingi Kolbeinsson stefndi fyrrverandi vinnuveitanda sínum, Kortaþjónustunni, vegna ógreiddra orlofsgreiðslna.

Ritstjórn
Jóhannes Ingi Kolbeinsson er fyrrverandi framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Jóhannes Ingi Kolbeinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar og einn af stofnendum félagsins, höfðaði mál gegn Kortaþjónustunni 1. október 2019 vegna heimtu vangreiddra orlofsgreiðslna auk dagsekta. Héraðsdómur hefur dæmt í málinu að Jóhannes eigi rétt á vangreiddum orlofsgreiðslum en ekki dagsektum. Dómurinn var kveðinn upp 3. júní en birtur í byrjun viku.

Jóhannes krafðist þess að Kortaþjónustan myndi borga honum vangreitt orlof að fjárhæð 1.556.001 króna auk dagsekta, 500.000 króna á dag, frá 6. júní 2019 til greiðsludags, eða í rétt rúmlega ár. Umkrafið orlof var 82 tímar sem stefnandi ávann sér á orlofsárinu 1. maí 2016 til 30. apríl 2017. Kortaþjónustan krafðist þess að vera sýknað af öllum kröfum Jóhannesar ásamt því að hann myndi greiða allan málskostnað.

Þar sem Héraðsdómur sættist á kröfu Jóhannesar um vangreitt orlof mun Kortaþjónustan þurfa að greiða honum rúmlega 1,5 milljónir króna. Ef Héraðsdómur hefði sæst á báðar kröfur Jóhannesar hefði fjárhæðin numið rúmlega 180 milljónum króna.

Dagsektakrafa stefnanda byggist á ákvæði 11.4 í samkomulagi um samstarf og lok ágreinings, um að standi aðilar ekki við skyldur sínar samkvæmt ákvæðum samkomulagsins skuli viðkomandi greiða févíti sem nemi 500.000 krónum á dag þar til hann hafi efnt skyldu sína. Að mati Héraðsdóms var vanefnda á starfslokasamningi það smávægileg að ekki kom til greiðslna févítis.