Jóhannes Ingi Kolbeinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar og einn af stofnendum félagsins, höfðaði mál gegn Kortaþjónustunni 1. október 2019 vegna heimtu vangreiddra orlofsgreiðslna auk dagsekta. Héraðsdómur hefur dæmt í málinu að Jóhannes eigi rétt á vangreiddum orlofsgreiðslum en ekki dagsektum. Dómurinn var kveðinn upp 3. júní en birtur í byrjun viku.

Jóhannes krafðist þess að Kortaþjónustan myndi borga honum vangreitt orlof að fjárhæð 1.556.001 króna auk dagsekta, 500.000 króna á dag, frá 6. júní 2019 til greiðsludags, eða í rétt rúmlega ár. Umkrafið orlof var 82 tímar sem stefnandi ávann sér á orlofsárinu 1. maí 2016 til 30. apríl 2017. Kortaþjónustan krafðist þess að vera sýknað af öllum kröfum Jóhannesar ásamt því að hann myndi greiða allan málskostnað.

Þar sem Héraðsdómur sættist á kröfu Jóhannesar um vangreitt orlof mun Kortaþjónustan þurfa að greiða honum rúmlega 1,5 milljónir króna. Ef Héraðsdómur hefði sæst á báðar kröfur Jóhannesar hefði fjárhæðin numið rúmlega 180 milljónum króna.

Dagsektakrafa stefnanda byggist á ákvæði 11.4 í samkomulagi um samstarf og lok ágreinings, um að standi aðilar ekki við skyldur sínar samkvæmt ákvæðum samkomulagsins skuli viðkomandi greiða févíti sem nemi 500.000 krónum á dag þar til hann hafi efnt skyldu sína. Að mati Héraðsdóms var vanefnda á starfslokasamningi það smávægileg að ekki kom til greiðslna févítis.