Framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar hefur höfðað mál á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar á bótarétti sem hún telur sig eiga sökum afgreiðslu kjararáðs á beiðni hennar um launahækkun. Þrátt fyrir að erindi hennar hafi verið sent tímanlega hlaut það ekki afgreiðslu ráðsins, og var í raun ekki virt viðlits, áður en það var lagt niður.

Rétt tæp þrjú ár eru liðin síðan Alþingi samþykkti lög sem lögðu kjararáð niður. Ákvörðunarvald um laun þeirra, sem áður heyrðu undir ráðið færðist í ýmsar áttir. Ákvarðanir um laun forstjóra ríkisfyrirtækja eru nú tekin af stjórn þeirra og kjörnir fulltrúar, auk dómara, saksóknara, seðlabankastjóra og fleiri starfa, þiggja nú laun samkvæmt fastákveðinni tölu í lögum.

Forstöðumenn ríkisstofnana færðust aftur á móti undir vald skrifstofu kjara- og mannauðs (KMR) fjármála- og efnahagsráðuneytisins (FJR). Laun síðastnefndu tveggja hópanna taka að auki breytingum í samræmi við breytingu á launavísitölu opinberra starfsmanna.

Lentu milli skips og bryggju

Rétt einu og hálfu ári áður en ráðið var lagt niður höfðu verið samþykkt ný lög um það þar sem fækkað var í hópi þeirra sem undir það heyrðu. Árið 2017 var síðan samþykkt ákvæði sem til bráðabirgða sem frestaði gildistöku nýs launakerfis forstöðumanna ríkisins til áramóta ársins 2018. Var ráðinu falið að ljúka þeim málum sem það hafði haft til meðferðar fyrir áramótin 2017/18. Þegar upp var staðið reyndist nokkur misbrestur á því.

Af fundargerðum kjararáðs árin 2015-2018, sem blaðamaður fékk afhentar árið 2019 eftir að hafa verið pennavinur ráðsins, FJR og úrskurðarnefndar um upplýsingamál í um átján mánuði, má ráða að alls hafi 37 embættismenn fengið frávísun frá ráðinu þar sem erindi þeirra bárust því 21. desember 2017 eða síðar. Síðasti fundur ráðsins það ár var 20. desember og töldust erindi sem bárust eftir það tímamark ekki hafa verið til meðferðar.

Nokkur erindi, sem send höfðu verið fyrir það tímamark, fengu heldur ekki náð fyrir augum ráðsins. Má þar nefna bréf skólameistara Flensborgarskólans, forstöðumanns Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, Dómarafélags Íslands og forstjóra Skipulagsstofnunar. Þau höfðu flest verið send á árinu 2017. Þá voru dæmi um það að enn eldri erindi hefðu ekki verið virt viðlits. Má þar nefna bréf forstjóra Byggðastofnunar og forstjóra Íbúðalánasjóðs frá árinu 2016.

Erindi Elfu Ýrar Gylfadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar, var enn eldra og hlaut ekki afgreiðslu. Ítrekunar vegna þess er getið í fundargerðum ráðsins árið 2017 en upphaflega sendingu þess er ekki að finna í þeim stafla sem blaðamaður fékk afhent. Þá fékk hún ekki svar um afstöðu frá ráðinu áður en það var lagt niður. Þó er mögulegt að færslur um einhver samskipti hafi verið afmáðar en til að mynda var nafn blaðamanns, það er þess sem óskað hafði eftir fundargerðunum, afmáð úr fundargerð þegar nefndin tók afstöðu til beiðninnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .