Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, krafðist þess í upphafi þingfundar á Alþingi í dag að Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar þingsins, bæði tvo lögfræðinga Seðlabankans afsökunar á orðum sínum í þeirra garð í Ríkisútvarpinu í morgun.

Þar kvaðst Árni Þór meðal annars - og vísaði þar til álits lögfræðinganna á Icesave - velta því fyrir sér hvort þeir væru á einhverju einkatrippi og hvort þeir áttuðu sig ekki á því að þeir væru ekki enn að vinna fyrir Davíð Oddsson.

Ragnheiður Elín sagði að Árni Þór væri með þessu að gera lítið úr sjónarmiðum fólks. „Þetta er óboðlegt og þingmanninum til mikillar minnkunar," sagði hún. „Ég krefst þess að hann komi hér og biðji þetta fólk afsökunar."

Það gerði Árni Þór ekki en fleiri þingmenn úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki komu hins vegar í pontu og tóku í sama streng og Ragnheiður.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði meðal annars að gagnrýni Árna Þórs í garð lögfræðinganna væri ómálefnaleg og ómakleg.

Lögfræðingarnir tveir, þau Sigríður Logadóttir og Sigurður Thoroddssen, gagnrýna í minnisblaði til utanríkismálanefndar harðlega Icesave-samningana.

Árni Þór sagði í samtali við Ríkisútvarpið í morgun að hann hefði fengið bréf í gærkvöld þar sem því er lýst yfir að minnisblaðið væri persónulegt álit lögfræðinganna en ekki formlegt álit Seðlabankans.

Samkvæmt upplýsingum úr Seðlabankanum er verið að vinna að nýju lögfræðiáliti bankans á Icesave-samningunum en ekki fæst uppgefið hvaða lögfræðingar vinni það álit og hvort það séu jafnvel þeir hinir sömu og sömdu minnisblaðið sem Árni Þór gagnrýndi í Ríkisútvarpinu í morgun.