Lögmaður Bjarkar Þórarinsdóttur, fyrrverandi forstöðumanni hjá Kaupþingi, krefst frávísunar hlut hennar í máli embættis sérstaks saksóknara gegn henni og átta öðrum fyrrverandi stjórnendum Kaupþings. Málið snýst um meinta markaðsmisnotkun þeirra upp á tugi milljarða króna í því skyni að halda uppi gengi hlutabréfa bankans í aðdraganda bankahrunsins haustið 2008. Búist er við því að dómari í málinu kveði úrskurð sinn um frávísunarkröfuna eftir um viku.

Sérstakur saksóknari ákærði níu fyrrverandi stjórnendur Kaupþings í tengslum við rannsókn embættisins á málinu og sex fyrrverandi stjórnendur gamla Landsbankans.

Frávísunarkrafa lögmanns Bjarkar var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag ásamt því sem saksóknari lagði fram gögn í málinu. Skýrslur sérfræðinga voru teknar frá í samræmi við dóm Hæstaréttar á dögunum.

Á meðal annarra sem ákærðir eru í máli embættis sérstaks saksóknara eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings-samstæðunar, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður, Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Ísland, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, og þau Einar Pálmi Sigmundsson, Birnir Sær Björnsson, Pétur Kristinn Guðmarsson og Bjarki H. Diego.