Donald Trump fyrrum Bandaríkjaforseti hefur höfðað meiðyrðamál á hendur CNN. Hann fer fram á meira en 475 milljónir dala í skaðabætur, jafnvirði 68 milljarða króna. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Í stefnu fyrrum forsetans segir að CNN hafi rekið ófrægingarherferð gegn Trump og að fréttastöðin hafi jafnframt staðið fyrir herferð sem fól í sér „mjög ærumeiðandi og viðvarandi tengsl“ milli Trump og Adolf Hitler.

Í stefnunni er sérstaklega minnst á þátt Fareed Zakaria sem fór í loftið 9. janúar. „Megininntak umfjöllunarinnar [í þætti Zakaria] var umræða um framgöngu Hitlers og samanburður við Trump. Þá var sýnt myndefni af Trump á meðan umræða um Hitler og nasistana hélt áfram.“

Þá segir í stefnunni að „fáránleg“ umfjöllun CNN sé til þess fallin að fólk óttist og hræðist Trump. Kosið verður til forseta Bandaríkjanna eftir rúm tvö ár, í byrjun nóvember 2024 og er talið líklegt að Trump bjóði sig fram á ný.