John Williams, seðlabankastjóri San Fransisco bankans, telur það æskilegt að seðlabankar og hið opinbera leyti nýrra leiða til þess að örva hagkerfi heimsins. Í bréfi sem birtist á vef seðlabankans, segir hann viðvarandi lágvaxtastefnu vera ákveðna ógn. Kreppur framtíðarinnar gætu orðið dýpri og erfiðari viðureignar.

Að mati Williams þarf seðlabankinn að setja sér hærri verðbólgumarkmið. Tengja þarf peningastefnu bankana beint við þróun efnahagsins og innleiða þarf kerfi sem bregst samstundis við niðursveiflum. Hann telur það einnig æskilegt að auka fjárfestingu á sviði mennta og rannsókna.

Bréf Williams kemur sumum á óvart, þar sem yfirmenn í seðlabönkum eru vanir að láta lítið í sér heyra þegar stutt er í forsetakosningar.

Á heimsvísu hafa sérfræðingar í seðlabönkum klórað sér í hausnum og reynt að leita leiða til þess að örva vöxt. Evrópskur og bandarískur efnahagur hefur nánast staðnað, þrátt fyrir sögulega miklar aðgerðir. Stýrivextir hafa aldrei verið jafn lágir og magnbundin íhlutun virðist ekki vera að skila tilætluðum markmiðum.