Þrír nefndarmenn í endurupptökunefnd, tveir aðalmenn og einn varamaður, hafa vikið sæti vegna vanhæfis í máli Ólafs Ólafssonar sem lagt var fyrir nefndina í síðasta mánuði. Þeir sem hafa vikið sæti eru Björn L. Bergsson, formaður nefndarinnar, Þórdís Ingadóttir og Sigurður Tómas Magnússon, sem er varamaður Þórdísar í nefndinni.

Ólafur hefur nú lagt fram sérstaka kröfu um að Kristbjörg Stephensen, sem tekur við sæti Björns, víki sæti vegna vanhæfis. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins í aprílmánuði kom fram að Kristbjörg hefði verið skólasystir Bjargar Thorarensen, eiginkonu Markúsar Sigurbjörnssonar hæstaréttardómara, við laganám þeirra í Háskóla Íslands, en Markús var einn dómara í Al Thani málinu.

Ekki reglulegur gestur á heimili Markúsar

Kristbjörg segist í samtali við Viðskiptablaðið ekki hafa talið sig vanhæfa til þess að fjalla um málið. Spurð að því hvort hún þekki Björgu Thorarensen segir hún þær vera vinkonur og hafi verið skólasystur í lagadeildinni. Spurð hvort hún þekki Markús Sigurbjörnsson segir hún: „Það er nú varla til sá lögfræðingur sem ekki þekkir Markús. Hann kenndi nú stórum hluta okkar sem höfum verið í lagadeildinni.“

Kristbjörg segist ekki vera reglulegur gestur á heimili Markúsar og Bjargar. „Ég þekki Markús ágætlega en fyrst og fremst sem eiginmann vinkonu minnar.“

Kristbjörg segist hafa hugleitt sitt hæfi þegar málið var lagt fyrir nefndina og ákveðið að taka sæti. Nú sé hins vegar komin fram krafa frá lögmanni Ólafs um að hún víki sæti sem þýði að nefndin þurfi sérstaklega að taka afstöðu til hæfis hennar. „Nú er málið komið á þann stað og verður ekki tekið til umfjöllunar fyrr en búið er að skipa nýjan nefndarmann,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .